Greiða átta milljónir evra í miskabætur

Hlúð að Abdelhak Nouri sumarið 2017.
Hlúð að Abdelhak Nouri sumarið 2017. AFP

Hollenska knattspyrnufélagið Ajax hefur fallist á að greiða fjölskyldu Abdelhak Nouri tæplega átta milljónir evra í miskabætur vegna óviðunandi læknismeðferðar sem varð til þess að hann hlaut alvarlegan og óafturkræfan heilaskaða.

Nouri fór í hjartastopp í æfingaleik með Ajax gegn Werder Bremen í Austurríki sumarið 2017.

Samkvæmt rannsókn hvers niðurstöður voru birtar árið 2018 eftir að fjölskylda Nouri kærði Ajax fyrir meðhöndlun félagsins á neyðartilfelli Nouris eyddu bráðaliðar of löngum tíma í að hreinsa öndunarveg hans og voru of seinir til að byrja að notast við hjartastuðtæki.

Fjölskylda Nouri og Ajax komust að samkomulagi um greiðslu í stað þess að láta dómstól hollenska knattspyrnusambandsins úrskurða í málinu.

Nouri var tvítugur þegar óhappið dundi yfir og hefur Ajax greitt fyrir allan læknakostnað hans allar götur síðan og mun gera áfram.

Hann þótti afar efnilegur miðjumaður og hafði leikið 15 leiki fyrir aðallið Ajax.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert