Ísak í harðri samkeppni

Ísak Bergmann Jóhannesson leikur með FC Köbenhavn.
Ísak Bergmann Jóhannesson leikur með FC Köbenhavn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Athygli vakti að Ísak Bergmann Jóhannesson, landsliðsmaðurinn ungi í knattspyrnu, var ekki í leikmannahópi FC Köbenhavn í fyrsta leiknum eftir vetrarfríið í dönsku úrvalsdeildinni í gær en FCK vann þá OB 2:0.

Jess Thorup þjálfari FCK segir að fjarvera Ísaks eigi sér tvenns konar útskýringar.

„Ísak var mest allan tímann í einangrun með kórónuveiruna í æfingaferðinni okkar og er þess vegna aðeins eftir sig af þeim sökum. En hann er líka í harðri samkeppni við þrjá af bestu miðjumönnum deildarinnar, Jens Stage, Lukas Lerager og Rasmus Falk, um sæti í byrjunarliðinu hjá okkur. Þetta var því ekkert mál af minni hálfu. En Ísak er nálægt þessu, hefur staðið sig vel og skoraði tvö mörk í síðasta æfingaleiknum okkar en hann er bara í harðri samkeppni," sagði Thorup við bold.dk.

FC Köbenhavn komst með sigrinum á topp úrvalsdeildarinnar með 36, stigi meira en Midtjylland sem tapaði 0:2 fyrir AaB á heimavelli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert