Rússneska knattspyrnufélagið CSKA Moskva hefur fengið varnartengiliðinn Jean-Philippe Gbamin á láni frá enska félaginu Everton út yfirstandandi leiktíð.
Gbamin, sem er frá Fílabeinsströndinni, hefur lítið sem ekkert spilað með Everton frá því að hann kom frá þýska félaginu Mainz sumarið 2019 og má það að mestu leyti skrifa á þrálát meiðsli, sum þeirra alvarleg.
Nú freistar hann þess að koma ferlinum aftur á kjöl með Herði Björgvini Magnússyni og félögum í Rússlandi, en hann er nýfarinn aftur af stað með CSKA Moskvu eftir að hafa slitið hásin á síðasta ári.