Napoli fór illa að ráði sínu þegar liðið sótti Cagliari heim í ítölsku A-deildinni í knattspyrnu karla í kvöld. Með sigri hefði liðið komist á topp deildarinnar en náði einungis að bjarga jafntefli seint og um síðir.
Eftir markalausan fyrri hálfleik kom úrúgvæski sóknartengiliðurinn Gaston Pereiro heimamönnum í Cagliari í forystu eftir tæplega klukkutíma leik.
Seint í leiknum, á 87. Mínútu, jafnaði nígeríski sóknarmaðurinn Victor Osimhen metin fyrir Napoli en lengra komst liðið ekki og 1:1 jafntefli niðurstaðan.
Þar með er Napoli áfram í þriðja sæti ítölsku A-deildarinnar með 54 stig, jafnmörg og ríkjandi meistarar Inter og tveimur sigum á eftir toppliði AC Milan.
Inter á leik til góða á bæði Napoli og AC Milan og getur því náð toppsætinu af nágrönnum sínum frá Mílanó.
Cagliari er í harðri botnbaráttu í 18. sæti, síðasta fallsætinu, með 22 stig, jafnmörg og Íslendingalið Venezia í sætinu fyrir ofan.