Ada Hegerberg, ein besta knattspyrnukona heims og samherji Söru Bjarkar Gunnarsdóttur hjá Lyon í Frakklandi, gæti snúið aftur í norska landsliðið eftir langa fjarveru.
Hegerberg lék síðast með landsliðinu fyrir fimm árum, 2017, en hefur síðan neitað að spila með því eftir deilur við norska knattspyrnusambandið.
Norski landsliðsþjálfarinn Martin Sjögren gerir sér vonir um að þessi mikla markamaskína leiki með norska liðinu á EM í sumar.
„Málin hafa verið rædd og sem stendur virðist þetta vera möguleiki. Og það er okkar takmark að það gangi upp, en þetta liggur ekki fyrir. Það yrði að sjálfsögðu gríðarlega mikilvægt fyrir okkur á þessu móti. Vonandi yrði það ákveðinn X-faktor fyrir okkur, við erum að tala um einn besta framherja heims," sagði Sjögren við fréttastofuna TT.
Ada Hegerberg lék síðast með norska landsliðinu á EM 2017 en hún er 26 ára gömul og hefur bæði verið kjörin besta knattspyrnukona Evrópu og hlotið Gullknöttinn, Ballon d'Or.
Hún hefur leikið með Lyon frá 2014 og skorað 152 mörk í 125 deildarleikjum fyrir félagið, og samtals 232 mörk í 201 mótsleik, unnið með því frönsku deildina sex sinnum og Evrópumeistaratitilinn fimm sinnum, og þá skoraði hún til ársins 2017 alls 38 mörk í 66 landsleikjum fyrir Noreg.