Þó argentínski knattspyrnumaðurinn Sergio Agüero hafi lagt skóna á hilluna í desember af heilsufarsástæðum stefnir hann á að fara með argentínska landsliðinu í lokakeppni heimsmeistaramótsins í Katar í lok ársins.
Agüero skýrði frá því í gær að hann hefði átt í viðræðum við Claudio Tapia, forseta argentínska knattspyrnusambandsins, og útlit væri fyrir að hann yrði í starfsliði landsliðsins á heimsmeistaramótinu.
„Við eigum eftir að skilgreina mitt hlutverk nákvæmlega en ég verð með liðinu á HM. Ég vil vera í samskiptum við leikmennina, vera með liðinu og hjálpa landsliðinu eins og ég mögulega get," sagði Agüero í viðtali við TyC Sports.
Agüero er 33 ára gamall og skoraði 41 mark í 101 landsleik fyrir Argentínu. Hann lék með liðinu á þremur heimsmeistaramótum, skoraði einmitt mark liðsins í 1:1 jafnteflinu gegn Íslandi í Moskvu árið 2018, og var í liðinu sem vann Ameríkubikarinn, Copa America, sumarið 2021, þegar Argentína vann þann titil í fyrsta sinn í 28 ár.
Argentína hefur þegar tryggt sér sæti í lokakeppni HM en liðið er ósigrað í undankeppninni þó enn séu þar tvær umferðir eftir.