Chelsea í góðri stöðu – jafnt á Spáni

Christian Pulisic fagnar marki sínu í kvöld.
Christian Pulisic fagnar marki sínu í kvöld. AFP

Chelsea vann góðan 2:0-sigur á Frakklandsmeisturum Lille í fyrri leik liðanna í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu karla á Stamford Bridge í Lundúnum í kvöld. Á sama tíma skildu Villarreal og Juventus jöfn á Spáni.

Ríkjandi Evrópumeistarar Chelsea hófu leikinn af miklum krafti og virtist Kai Havertz sérstaklega áfjáður í að skora. Strax á fjórðu mínútu fékk hann sannkallað dauðafæri en skot hans af stuttu færi eftir fyrirgjöf César Azpilicueta fór yfir markið.

Á sjöundu mínútu fékk hann annað færi þegar hann fékk boltann frá N’Golo Kanté, lagði hann laglega fyrir sig utarlega í vítateignum og náði flottu skoti sem Léo Jardim í marki Lille varði vel aftur fyrir.

Upp úr hornspyrnunni náði Havertz svo loks að skora. Hakim Ziyech tók hana frá vinstri og Havertz sleit sig lausan og skallaði boltann laglega í jörðina og þaðan upp í hornið.

Kai Havertz kemur Chelsea yfir.
Kai Havertz kemur Chelsea yfir. AFP

Staðan orðin 1:0 eftir átta mínútna leik.

Eftir þessa kraftmiklu byrjun náðu gestirnir í Lille betri tökum á leiknum og héldu boltanum vel. Þá komust leikmenn þess gjarna í álitlegar stöður en varnarmenn Chelsea komu nokkrum sinnum í veg fyrir að Lille næði að skapa sér almennileg færi.

Chelsea leiddi því með einu marki í leikhléi.

Heimamenn hófu síðari hálfleikinn af krafti og tvöfölduðu forystuna eftir rúmlega klukkutíma leik.

Kanté átti þá frábæran sprett í gegnum miðjuna, lagði boltann til hliðar á Christian Pulisic í vítateignum og hann lagði boltann framhjá Jardim og þaðan hafnaði hann í bláhorninu fjær.

Eftir mark Pulisic færðist talsvert meiri ró yfir leikinn og gerðist raunar fátt markvert það sem eftir lifði hans.

Lauk leiknum því með sterkum 2:0-sigri Chelsea og staða liðsins því góð fyrir síðari leikinn í Frakklandi þann 16. mars næstkomandi.

Skoraði eftir 32 sekúndur

Í leik Villarreal og Juventus fengu gestirnir frá Ítalíu sannkallaða draumabyrjun. Serbinn ungi Dusan Vlahovic skoraði þá eftir aðeins 32 sekúndna leik eftir að hafa fengið langa sendingu fram frá Danilo, tekið vel við boltanum og klárað glæsilega með hægri fótar skoti niður í fjærhornið.

Þetta var fyrsta Meistaradeildarmark Vlahovic á ferlinum.

Á 13. mínútu komst Giovani Lo Celso nálægt því að jafna metin fyrir Villarreal en skot hans eftir sendingu Alfonso Pedraza hafnaði í stönginni.

Á 38. mínútu fékk Weston McKennie dauðafæri til þess að tvöfalda forystu Juventus en varnarmaður Villarreal náði að komast í veg fyrir skot hans á ögurstundu.

Staðan því 1:0, Juventus í vil, þegar flautað var til hálfleiks.

Um miðjan síðari hálfleikinn jafnaði Villarreal metin. Dani Parejo fékk þá frábæra fyrirgjöf frá Étienne Capoue og kláraði með góðu vinstri fótar skoti.

Fleiri urðu mörkin ekki og 1:1 jafntefli niðurstaðan.

Þar með er allt galopið fyrir síðari leikinn í Tórínó 16. mars.

Dusan Vlahovic, fyrir miðju, skoraði eftir rétt rúmlega hálfa mínútu.
Dusan Vlahovic, fyrir miðju, skoraði eftir rétt rúmlega hálfa mínútu. AFP
Chelsea 2:0 Lille opna loka
90. mín. Lille fær hornspyrnu +1
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert