Farin heim til Íslands með brotið rifbein

Betsy Hassett, til hægri, reynir að ná boltanum af Sveindísi …
Betsy Hassett, til hægri, reynir að ná boltanum af Sveindísi Jane Jónsdóttur í leik Íslands og Nýja-Sjálands í Kaliforníu á dögunum. AFP

Betsy Hassett, leikmaður Stjörnunnar, hefur dregið sig út úr nýsjálenska landsliðshópnum í knattspyrnu fyrir lokaleikinn á She Believes Cup, alþjóðlega mótinu í Bandaríkjunum, en Nýja-Sjáland mætir þar Tékkum annað kvöld.

Hassett, sem er fjórða leikjahæsta landsliðskonan í sögu Nýja-Sjálands með 128 landsleiki, lék gegn Íslandi og Bandaríkjunum á mótinu. Hún þurfti að fara af velli vegna meiðsla eftir aðeins 22 mínútna leik gegn bandaríska liðinu.

Á heimasíðu nýsjálenska knattspyrnusambandsins segir að Betsy hafi rifbeinsbrotnað og hún hafi ekki farið með liðinu frá Kaliforníu til Texas heldur haldið heim á leið, til Íslands.

Betsy, sem er 31 árs, hefur verið búsett á Íslandi undanfarin ár og spilað 69 úrvalsdeildarleiki með Stjörnunni og KR. Hún lék áður með Ajax í Hollandi, Werder Bremen og Sand í Þýskalandi, Manchester City á Englandi og Amazon Grimstad í Noregi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert