Pierre-Emerick Aubameyang, fyrrverandi fyrirliði Arsenal, virðist ekki ætla að halda á lofti umræðunni um meinta samstarfsörðugleika hjá honum og Mikel Arteta knattspyrnustjóra Arsenal.
Aubameyang er nú kominn til Barcelona og átti stórleik gegn Valencia um síðustu helgi. Var hann spurður í viðtali við Sport.es út í samskiptin við Arteta og viðskilnaðinn.
Aubameyang gerði ekki mikið úr málinu nú þegar hann er búinn að finna sér nýtt lið. Sagðist einnig hafa lært mikið hjá Arteta. Bæði hvað varðar leikstílinn á vellinum, ýmislegt varðandi æfingar og hann hafi lært að vera fyrirliði.