Knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, fylgist grannt með málum Rússlands og Úkraínu þessa dagana en mögulegt er að úrslitaleikur Meistaradeildar karla sem fram á að fara í Pétursborg í vor verði tekinn af Rússum.
„UEFA fylgist stöðugt og vel með gangi mála. Sem stendur eru engar áætlanir uppi um að flytja úrslitaleikinn," segir í yfirlýsingu sem sambandið birti í dag.
The Guardian segir að pressan á UEFA sé hinsvegar mikil í kjölfar þess að Vladimir Pútin, forseti Rússlands, ákvað að senda hersveitir inn á Donbass-svæðið í austurhluta Úkraínu. Þrátt fyrir yfirlýsinguna í dag sé málið galopið.
Úrslitaleikurinn á að fara fram 28. maí en UEFA hefur tvö undanfarin ár þurft að breyta um keppnisstað vegna útbreiðslu kórónuveirunnar.