Áfram í Grikklandi

Sverrir Ingi Ingason verður áfram í Grikklandi næstu árin.
Sverrir Ingi Ingason verður áfram í Grikklandi næstu árin. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Knattspyrnumaðurinn Sverrir Ingi Ingason hefur framlengt samning sinn við gríska félagið PAOK. Þetta tilkynnti félagið á samfélagsmiðlum sínum í kvöld.

Varnarmaðurinn, sem er 28 ára gamall, skrifaði undir þriggja og hálfs árs framlengingu sem rennur út sumarið 2025.

Sverrir Ingi gekk til liðs við gríska félagið árið 2019 frá Rostov í Rússlandi og á að baki 94 leiki fyrir félagið í öllum keppnum þar sem hann hefur skorað 12 mörk og lagt upp önnur þrjú.

Hann er uppalinn hjá Breiðabliki í Kópavogi en hefur einnig leikið með Viking í Noregi, Lokeren í Belgíu og Granada á Spáni á atvinnumannaferlinum.

Þá á hann að baki 39 A-landsleiki þar sem hann hefur skorað þrjú mörk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert