Frakkar sigruðu Evrópumeistara Hollands, 3:1, í úrslitaleiknum á Frakklandsmótinu, alþjóðlegu móti kvennalandsliða í knattspyrnu, í Le Havre í gærkvöld.
Frökkum nægði jafntefli í leiknum og þeir unnu mótið með 9 stig, Holland fékk 4 stig, Brasilía tvö og Finnland eitt en Brasilía og Finnland gerðu markalaust jafntefli í hinum leik lokaumferðarinnar í gær.
Wendie Renard, miðvörðurinn reyndi, kom Frökkum yfir úr vítaspyrnu á 20. mínútu og Marie Antoinette Katoto bætti við marki fimm mínútum síðar.
Lineth Beerensteyn minnkaði muninn fyrir Hollendinga í byrjun síðari hálfleiks en Katoto skoraði aftur á 74. mínútu og innsiglaði sigur Frakka.
Ísland mætir Frakklandi í lokakeppni Evrópumótsins á Englandi í sumar og Hollandi í undankeppni heimsmeistaramótsins á útivelli í haust.