Svíinn ungi bjargaði jafntefli fyrir United

Anthony Elanga jafnar metin fyrir Manchester United.
Anthony Elanga jafnar metin fyrir Manchester United. AFP

Atlético Madríd og Manchester United skildu jöfn, 1:1, í fyrri leik liðanna í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í Madríd í kvöld. Hinn 19 ára gamli Svíi, Anthony Elanga, jafnaði metin fyrir United seint í leiknum.

Heimamenn byrjuðu leikinn af krafti og náðu forystunni strax á sjöundu mínútu.

Í kjölfar hornspyrnu átti Renan Lodi frábæra fyrirgjöf frá vinstri á Joao Félix sem sleit sig lausan, henti sér fram og náði frábærum flugskalla sem fór í nærstöngina og þaðan í netið.

Atlético hélt pressunni um stund en eftirlétu svo gestunum að halda boltanum. United-menn áttu í talsverðum erfiðleikum með að brjóta þétta vörn heimamanna á bak aftur og fengu engin almennileg færi í fyrri hálfleiknum.

Undir lok fyrri hálfleiks komst Sime Vrsaljko nálægt því að tvöfalda forystu Atlético. Lodi átti þá aðra stórhættulega fyrirgjöf frá vinstri þar sem Vrsaljko var mættur á fjærstöngina en skalli hans af örstutu færi fór af Victor Lindelöf og þaðan í stöngina.

Atlético leiddi því með einu marki þegar flautað var til leikhlés.

Síðari hálfleikurinn var tíðindalítill þar sem United hélt boltanum mikið en skapaði sér lítið sem ekkert, ekki frekar en heimamenn.

Það dró loks til tíðinda á 80. mínútu leiksins. Bruno Fernandes gaf þá boltann inn fyrir á Elanga, sem var nýkominn inn á sem varamaður, Reinildo í vörn Atlético mistókst að hreinsa frá og Elanga átti ekki í nokkrum vandræðum með að renna boltanum niður í fjærhornið framhjá Jan Oblak.

Á 87. mínútu komst varamaðurinn Antoine Griezmann nálægt því að koma Atlético í forystu á ný en skot hans úr vítateignum eftir hornspyrnu hafnaði í þverslánni.

Fleiri urðu mörkin hins vegar ekki og 1:1-jafntefli því lokatölur.

Það er því allt í járnum fyrir síðari leikinn á Old Trafford í Manchester þann 15. mars næstkomandi.

Joao Félix fagnar glæsilegu skallamarki sínu.
Joao Félix fagnar glæsilegu skallamarki sínu. AFP
Marcus Rashford og Renan Lodi í baráttunni.
Marcus Rashford og Renan Lodi í baráttunni. AFP
Atlético Madrid 1:1 Man. Utd opna loka
90. mín. Alex Telles (Man. Utd) á skot sem er varið +2 Skotið af varnarmanni og aftur fyrir.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert