Alain Roche, fyrrverandi leikmaður knattspyrnuliðs París SG í Frakklandi, segir að forráðamenn félagsins hafi gert stór mistök með því að semja við spænska miðvörðinn Sergio Ramos síðasta sumar.
Ramos, sem er 35 ára gamall, gekk til liðs við París SG á frjálsri sölu eftir sextán ár í herbúðum spænska stórliðsins Real Madrid þar sem hann var fyrirliði frá árinu 2015.
Varnarmaðurinn hefur hins vegar lítið komið við sögu hjá PSG vegna meiðsla og hefur aðeins leikið fimm leiki í öllum keppnum fyrir félagi, þar sem hann hefur skorað eitt mark.
„Hann hefur ekki ennþá spilað mikilvægan leik fyrir félagið, ekki einu sinni í Meistaradeildinni,“ sagði Roche í samtali við Canal+.
„Það var frábært að fá hann og ná að semja við hann en þetta var röng ákvörðun þegar allt kemur til alls.
Það eina sem stuðningsmenn félagsins geta gert er að vonast eftir kraftaverki en fyrir mér er tímabilið hans búið,“ sagði Roche en Ramos hefur misst af síðustu þremur leikjum liðsins vegna meiðsla.