Segja lausn FIFA óásættanlega og mæta ekki Rússum

FIFA hefur verið harðlega gagnrýnt fyrir ákvörðun sína.
FIFA hefur verið harðlega gagnrýnt fyrir ákvörðun sína. AFP

Knattspyrnusambönd Póllands, Tékklands og Svíþjóðar hafa öll fordæmt þá ákvörðun FIFA að leyfa rússneska landsliðinu að keppa í leikjum sínum án fána og ætla ekki að mæta Rússum í komandi leikjum.

Áður höfðu þjóðirnar gefið út að þær myndu ekki keppa gegn Rússum í ljósi innrásar þeirra í Úkraínu. Reyndu FIFA að koma til móts við þær með því að meina liði Rússlands að bera fána þjóðarinnar, spila á heimavelli og syngja rússneska þjóðsönginn.

Nafn og merkingar skipti engu máli

Cezary Kulesza, forseti pólska knattspyrnusambandsins, var fyrstur til sýna viðbrögð við ákvörðun FIFA og sagði hann hana „algjörlega óásættanlega“ í tísti.

Nafn og merkingar liðsins skipti engu máli, þau myndu ekki keppa gegn Rússum undir neinum kringumstæðum.

Áður áttu liðin að keppa í leik þann 24. mars nk. í umspili fyrir HM. Nú er ljóst að ekkert verður af þeim leik.

Tíst Kulesza:

Svíþjóð og Tékkland á sama máli

Eftir viðbrögð pólska knattspyrnusambandsins komu út yfirlýsingar frá því sænska og tékkneska, þar sem þau taka svipaða afstöðu.

„Við höfum þegar gefið það út að við viljum ekki mæta Rússum undir þessum kringumstæðum [í ljósi innrásar Rússlands í Úkraínu] og það verður staðan þar til tilkynnt verður um annað,“ sagði í yfirlýsingu frá sænska knattspyrnusambandinu.

Það tékkneska var á sama máli og sagði ákvörðun FIFA „breyta engu“ um þá ákvörðun sína að spila ekki gegn liðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert