Svava með tvennu í stórsigri

Svava Rós Guðmundsdóttir skoraði tvö mörk fyrir Brann í dag.
Svava Rós Guðmundsdóttir skoraði tvö mörk fyrir Brann í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Svava Rós Guðmundsdóttir, landsliðskona í knattspyrnu, lék afar vel í fremstu víglínu hjá ríkjandi Noregsmeisturum Brann þegar Arna-Björnar komu í heimsókn í norsku úrvalsdeildinni í dag.

Svava Rós skoraði í tvígang í fyrri hálfleik og sá til þess að staðan var 3:0 fyrir Brann í leikhléi.

Brann bætti enn frekar í í síðari hálfleik og vann að lokum öruggan 7:0-sigur.

Svava Rós lék fyrstu 68 mínúturnar í liði Brann og félagi hennar í íslenska landsliðinu, Berglind Björg Þorvaldsdóttir, lék allan leikinn.

Þá kom hin hálfíslenska Marie Rekdal Jóhannsdóttir inn á sem varamaður í liði Arna-Björnar, en hún er aðeins 17 ára gömul.

Selma Sól Magnúsdóttir lék þá allan leikinn fyrir Rosenborg í sterkum 3:2-útisigri á Stabæk.

Hin íslenskættaða Iris Omarsdottir, sem er 18 ára unglingalandsliðskona Noregs, lék þá allan leikinn í liði Stabæk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka