Það bendir ýmislegt til þess að eitrað hafi verið fyrir rússneska óligarkanum Roman Abramovich í mars þegar hann ferðaðist til Kænugarðs í Úkraínu til friðarviðræðna en Rússinn er eigandi enska knattspyrnufélagsins Chelsea.
Það er Wall Street Journal sem greinir frá þessu en í frétt bandaríska miðilsins kemur fram að aðilar í úkraínsku sendinefndinni hafi einnig fundið fyrir einkennum vegna hugsanlegrar eitrunar.
Abramovich og að minnsta kosti tveir meðlimir úkraínsku sendinefndarinnar fundu fyrir einkennum á borð við rauð og þurr augu og þá á húð þeirra að hafa flagnað á bæði höndum og í andliti en allir eru þeir á batavegi.
Abramovich er einn þeirra sem hefur reynt að aðstoða Úkraínumenn í friðarviðræðum þeirra við Rússa eftir innrás Rússlands í Úkraínu sem hófst í lok febrúar á þessu ári.
Samkvæmt heimildum Wall Street Journal þá stóðu harðlínumenn í Moskvu á bakvið meinta eitrun en þeir eru sagðir lítt hrifnir af friðarviðræðum Rússlands og Úkraínu.
Abramovich setti Chelsea á sölulista fljótlega eftir innrás Rússlands en Evrópusambandið og Bretland beittu Chelsea þungum refsiaðgerðum vegna tengsla Abramovich við Vladimir Pútín Rússlandsforseta.