Knattspyrnusamband Evrópu hefur tilkynnt breytingar á fyrirkomulagi Meistaradeildar Evrópu í karlaflokki.
Breytingarnar munu taka gildi árið 2024 sem þýðir að keppnin verður með óbreyttu sniði næstu tvö tímabil.
Breytingin er þannig að 36 lið fá þátttökurétt í aðalkeppninni í stað 32 eins og verið hefur. Í stað riðlakeppninnar munu öll 36 liðin spila átta leiki gegn átta mismunandi mótherjum. Þau átta lið sem fá flest stig komast beint í 16-liða úrslit en liðin sem enda í níunda til 24. sæti spila eina umferð, heima og heiman, um að komast þangað.
Tveimur af þessum fjórum aukasætum verður úthlutað með sérstöku stigakerfi sambandsins. Ef úthluta ætti þeim í ár myndu England og Holland fá sitthvort aukasætið í Meistaradeildinni að ári vegna góðs árangurs liða þaðan í Evrópukeppnum á tímabilinu.
Simon Stone hjá BBC bendir á að þessar breytingar munu að öllum líkindum hafa áhrif á enska deildabikarinn þar sem leikdögum í Meistaradeildinni mun fjölga. Oft hefur verið erfitt að finna leikdaga í deildabikarnum og mun það ekki verða auðveldara eftir þessar breytingar.