Knattspyrnumaðurinn ungi Orri Steinn Óskarsson hefur skrifað undir nýjan samning við dönsku meistarana FC Köbenhavn til næstu ára.
Félagið skýrði frá þessu í kvöld en ekki kemur fram hversu langur samningurinn er. Orri, sem er 17 ára gamall, kom til FCK frá Gróttu fyrir tveimur árum og hefur verið aðalmarkaskorari U19 ára liðs félagsins.
Hann fékk síðan sitt fyrsta tækifæri með aðalliðinu í úrvalsdeildinni um síðustu helgi, og kom þá inná sem varamaður þegar FCK vann AaB, 3:0, í lokaumferðinni og tryggði sér danska meistaratitilinn.