Berlusconi mættur í A-deildina og vill vinna hana

Silvio Berlusconi er alls staðar umdeildur og nú er hann …
Silvio Berlusconi er alls staðar umdeildur og nú er hann kominn aftur í sviðsljósið í ítalska fótboltanum. AFP/Filippo Monteforte

Monza, lið Silvios Berlusconis, eins umdeildasta stjórnmálamanns Ítalíu og forsætisráðherra landsins um árabil, er komið í ítölsku A-deildina í fótbolta. Berlusconi ætlar því stóra hluti á næstu árum.

Monza vann sér um helgina sæti í A-deildinni eftir framlengdan leik gegn Pisa í seinni úrslitaleik umspilsins í B-deildinni, þar sem Hjörtur Hermannsson skoraði eitt af mörkum Pisa í 3:4 ósigri.

Berlusconi, sem er orðinn 85 ára gamall, var áður eigandi AC Milan og sér nú fyrir sér að fara með lið Monza á sömu slóðir í ítalska fótboltanum.

„Við héldum að við myndum fara með liðið upp í fyrra en þá vorum við óheppnir. Núna var þetta barátta til loka tímabilsins, þetta var ekki auðvelt en það tókst og nú erum við komnir í A-deildina," sagði Berlusconi við netmiðilinn Football Italia.

„Fyrst við erum komnir í A-deildina viljum við vinna meistaratitilinn og komast í Meistaradeildina, sem við viljum líka vinna. Ég er vanur að spila til sigurs svo við skulum sjá til hvernig gengur," sagði Berlusconi sem fagnaði líka meistaratitli síns gamla félags, AC Milan.

„Þetta var einstakt tímabil og hjartastyrkjandi. AC Milan vann A-deildina og Monza komst þangað," sagði Silvio Berlusconi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert