Hlín Eiríksdóttir og liðsfélagar hennar í sænska úrvalsdeildarliðinu í knattspyrnu Piteå taka á móti Djurgården í miðnætursólinni annað kvöld.
Leikurinn hefst klukkan 23:00 að sænskum tíma en yfirleitt eru leikirnir spilaðir á daginn eða snemma á kvöldin.
„Þetta er útaf miðnætursólinni og það er bjart allan sólarhringinn hér í Norður-Svíþjóð núna,“ segir Hlín í samtali við mbl.is.
„Þetta er stór viðburður hér til að vekja athygli á liðinu og svo held ég að klúbburinn fái einhverja peninga út á þetta ef ég skil þetta rétt,“ bætti Hlín við en hún fagnar 22 ára afmæli sínu daginn fyrir leik.
Landsliðskonan gekk til liðs við Piteå frá Val árið 2021 og hefur skorað 5 mörk í 13 leikjum fyrir liðið á tímabilinu.
„Ég hlakka mjög mikið til. Þetta verður allt öðruvísi en aðrir heimaleikir því þetta er í öðrum bæ sem er ennþá norðar en Piteå þannig að það verða aðrir áhorfendur í stúkunni og svona. En fyrir okkur leikmennina held ég að þetta verði svo sem svipað og allir aðrir leikir.“
„Við æfðum seint núna í kvöld og svo reynum við að sofa aðeins út á morgun,“ bætti Hlín við að lokum.
Hún skoraði gegn Djurgården í 4:1 útisigri Piteå í fyrri leik liðanna í Stokkhólmi í lok mars. Piteå situr í 9. sæti deildarinnar með 17 stig, tveimur stigum á eftir Djurgården þegar liðin hafa spilað 13 leiki.