Arnór á leið aftur til Norrköping

Arnór Sigurðsson í landsleik Íslands og Ísrael í síðasta mánuði.
Arnór Sigurðsson í landsleik Íslands og Ísrael í síðasta mánuði. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Arnór Sigurðsson landsliðsmaður í knattspyrnu er á leið til sænska félagsins Norrköping á nýjan leik og verður kynntur þar til leiks mjög fljótlega, líkast til í næstu viku.

Þetta segir Aftonbladet í netútgáfu sinni í dag, samkvæmt heimildum, og ennfremur að Norrköping greiði hálfa aðra milljón sænskra króna fyrir Arnór en félagið seldi hann til CSKA Moskva í Rússlandi fyrir 40 milljónir sænskra króna fyrir fjórum árum.

Arnór lék þrjú tímabil með CSKA þar sem hann spilaði 66 úrvalsdeildarleiki og skoraði ellefu mörk, ásamt því að skora tvö mörk fyrir liðið í sex leikjum í Meistaradeildinni árið 2018. gegm stórliðunum Roma og Real Madrid. Í vetur var hann í láni hjá Venezia í ítölsku A-deildinni en lék aðeins níu leiki með liðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert