Jón Dagur með stoðsendingu gegn Leicester

Jón Dagur Þorsteinsson í leik Íslands gegn Ísrael en Jón …
Jón Dagur Þorsteinsson í leik Íslands gegn Ísrael en Jón Dagur á 21 A-lands­leik. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Jón Dagur Þorsteinsson fer vel af stað með nýja liði sínu OH Leuven en hann var í byrjunarliði og lagði upp mark gegn Leicester sem spilar í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu. Leikurinn var æfingaleikur sem var spilaður í Belgíu og endaði með 3:3 jafntefli.

Jón Dagur kom á dögunum til belgíska liðsins á frjálsri sölu frá AGF í Árósum en hann hefur verið þar frá 2019.

Musa Al-Taamari skoraði fyrsta mark leiksins fyrir Leuven og Jón Dagur lagði upp annað mark leiksins fyrir Nachon Nsingi.

Leuven komst því í stöðuna 2:0 gegn enska liðinu eftir 12 mínútna leik og náði að halda því út þar til á 54. mínútu þegar Kiernan Dewsbury-Hall skoraði fyrsta mark Leicester.

Patson Daka jafnaði svo leikinn fyrir Leicester á 58. mínútu.

Í uppbótartíma leiksins komu svo tvö mörk, fyrst frá Mykola Kukharevych hjá Leuven og seinna markið skoraði Jamie Vardy og jafnaði þannig metin í 3:3 fyrir Leicester.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert