Landsliðsmarkvörðurinn Rúnar Alex Rúnarsson gæti gengið í raðir danska meistaraliðsins FC Kaupmannahöfn frá Arsenal á Englandi.
Danski miðilinn Tipsbladet greinir frá í dag og segir forráðamenn Kaupmannahafnarfélagsins líta á Rúnar sem mögulegan kost í staðinn fyrir Kamil Grabara, sem er að glíma við meiðsli.
Knattspyrnublaðamaðurinn Dean James segir jafnframt FCK vera eitt þeirra félaga sem eru áhugasöm um Rúnar en Arsenal vill losna við íslenska markvörðinn.
Rúnar þekkir dönsku deildina vel en hann var aðalmarkvörður Nordsjælland frá 2016 til 2018. Þaðan fór hann til Dijon í Frakklandi og loks Arsenal. Eftir erfitt fyrsta tímabil hjá Arsenal var Rúnar lánaður til OH Leuven í Belgíu á síðustu leiktíð, þar sem hann lék vel.
Ísak Bergmann Jóhannesson, Hákon Arnar Haraldsson og Orri Steinn Óskarsson eru allir hjá FC Kaupmannahöfn og Andri Fannar Baldursson var að láni hjá félaginu á síðustu leiktíð.