Viðar jafnaði met Eiðs Smára

Viðar Örn Kjartansson er byrjaður að skora fyrir Atromitos á …
Viðar Örn Kjartansson er byrjaður að skora fyrir Atromitos á Grikklandi. Ljósmynd/Atromitos

Viðar Örn Kjartansson jafnaði met Eiðs Smára Guðjohnsens þegar hann skoraði fyrir Atromitos í fyrsta leik sínum með liðinu í grísku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í gær.

Viðar kom til Atromitos fyrr í þessum mánuði frá Vålerenga í Noregi og í fyrstu umferð deildarinnar í gær kom hann inn á sem varamaður og skoraði í 3:1 sigri liðsins gegn OFI frá Krít.

Þar með hefur Viðar skorað í deildakeppnum átta landa á ferlinum, allra þeirra landa þar sem hann hefur leikið.

Það eru Ísland, Noregur, Kína, Svíþjóð, Ísrael, Rússland, Tyrkland og nú Grikkland.

Eiður Smári Guðjohnsen var fram að því eini Íslendingurinn sem hafði skorað í deildakeppni átta landa en það eru Ísland, Holland, England, Spánn, Grikkland, Belgía, Kína og Noregur. Eiður lék í níu löndum en náði ekki að skora í Frakklandi.

Þá jafnaði Viðar metin við Alfreð Finnbogason sem sá íslenski knattspyrnumaður sem hefur skorað næstflest mörk í deildakeppni erlendis. Þetta var 109. mark Viðars fyrir erlent félag en Alfreð hefur einnig skorað 109 mörk erlendis. Heiðar Helguson er sá eini sem er fyrir ofan þá en hann skoraði 133 mörk í deildakeppni erlendis á sínum ferli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert