Ítalska A-deildarfélagið Fiorentina hefur staðfest komu Alexöndru Jóhannsdóttur, landsliðskonu í fótbolta, í raðir félagsins en hún kemur frá Frankfurt í Þýskalandi. Alexandra gerir samning við Fiorentina sem gildir til 30. júní 2024.
Alexandra, sem er 22 ára, er uppalin hjá Haukum en lék í nokkur ár með Breiðabliki hér á landi áður en hún hélt til Þýskalands. Hún náði hinsvegar ekki að festa sig í sessi í byrjunarliði Frankfurt og ákvað því að söðla um.
Miðjumaðurinn hefur leikið 26 A-landsleiki og skorað í þeim þrjú mörk. Kom hún við sögu í tveimur af þremur leikjum Íslands á EM á Englandi í sumar. Þá hefur hún leikið 74 leiki í efstu deild Íslands og skorað í þeim 31 mark.