Berglind til franska stórliðsins

Berglind Björg Þorvaldsdóttir í leik Íslands gegn Frakklandi á EM …
Berglind Björg Þorvaldsdóttir í leik Íslands gegn Frakklandi á EM 2022 á Englandi fyrr í sumar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Berglind Björg Þorvaldsdóttir, landsliðskona í knattspyrnu, er gengin í raðir franska stórliðsins París Saint-Germain. Kemur hún frá norska meistaraliðinu Brann.

Frá þessu er greint á vef norska ríkisútvarpsins.

Þar segir að hún sé búin að standast læknisskoðun og skrifa undir samning við PSG.

Berglind Björg, sem er þrítugur sóknarmaður, gekk til liðs við Brann í upphafi þessa árs eftir hálfs árs dvöl hjá sænska úrvalsdeildarliðinu Hammarby.

Hún hefur komið víða við á ferlinum og þar á meðal áður leikið í Frakklandi, með Le Havre tímabilið 2020/2021, auk þess að hafa leikið með AC Milan og Verona á Ítalíu og PSV í Hollandi.

Þá hefur Berglind Björg raðað inn mörkum í efstu deild hérlendis fyrir Breiðablik, ÍBV og Fylki, þar sem hún hefur skorað 135 mörk í 190 leikjum.

Þá á hún 66 A-landsleiki að baki og hefur skorað í þeim 12 mörk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert