Komust ekki að niðurstöðu í máli Giggs

Ryan Giggs á leið sinni í réttarsalinn.
Ryan Giggs á leið sinni í réttarsalinn. AFP/Oli Scarff

Kviðdómurinn sem skera átti úr um sekt eða sakleysi Ryan Giggs, fyrrverandi knattspyrnumanns hjá Manchester United, hefur verið leystur upp eftir að honum mistókst að komast að einróma niðurstöðu.

Giggs var ákærður fyrir að hafa beitt fyrrverandi kærustu sína og yngri systur hennar líkamlegu og andlegu ofbeldi. Giggs lýsti yfir sakleysi sínu í gegnum öll réttarhöldin, sem stóðu yfir í þrjár vikur.

Kviðdómurinn var skipaður ellefu manneskjum, sjö konum og fjórum körlum. Er það nú í höndum embættis saksóknara að ákveða hvort farið verði fram á önnur réttarhöld.

Var Giggs sakaður um að hafa skallað Kate Greville, fyrrverandi kærustu sína, og að hafa gefið yngri systur hennar olnbogaskot. Þá var hann einnig sakaður um andlegt ofbeldi í nánu sambandi frá 2017 til 2020.

Var hann landsliðsþjálfari Wales á þeim tíma, en hann hætti með liðið í kjölfar ákærunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert