Knattspyrnumaðurinn Orri Steinn Óskarsson skoraði annað marka U19-ára liðs FC Kaupmannahafnar þegar það vann sterkan 2:0-útisigur á Borussia Dortmund í G-riðli Meistaradeildar Evrópu í aldursflokknum í gær.
Orri Steinn kom gestunum frá Kaupmannahöfn á bragðið seint í leiknum, á 78. mínútu, áður en Mil Schlichting innsiglaði sigurinn fimm mínútum síðar.
Í gærkvöldi tapaði aðallið Kaupmannahafnar 0:3 fyrir Dortmund þar sem Hákon Arnar Haraldsson kom inn á sem varamaður og varð þar með næstyngsti Íslendingurinn til þess að spila í Meistaradeild Evrópu.
Orri Steinn, sem er nýorðinn 18 ára, lék sinn fyrsta leik fyrir aðallið Kaupmannahafnar í síðustu umferð dönsku úrvalsdeildarinnar á síðustu leiktíð, gegn AaB, þegar liðið fagnaði danska meistaratitlinum.
Hann hefur einu sinni verið á varamannabekknum í deildinni á yfirstandandi tímabili en kom ekki við sögu í þeim leik.
Þrátt fyrir ungan aldur á Orri Steinn þegar fjóra leiki að baki fyrir U21-árs landslið Íslands og 15 leiki í 1. og 2. deild fyrir uppeldisfélagið Gróttu hér á landi, þar sem hann skoraði fjögur mörk.