Heimir mætir Messi í fyrsta leik

Heimir Hallgrímsson er að taka við landsliði Jamaíka.
Heimir Hallgrímsson er að taka við landsliði Jamaíka. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Knattspyrnuþjálfarinn Heimir Hallgrímsson er að taka við karlalandsliði Jamaíka en í frétt jamaíska miðilsins the Gleaner verður Heimir tilkynntur sem þjálfari liðsins á föstudaginn.

Fyrsti leikur Jamaíka undir stjórn Heimis yrði gegn Argentínu hinn 27. september þegar liðin mætast í vináttulandsleik í New York í Bandaríkjunum.

Lionel Messi, einn besti knattspyrnumaður heims, er fyrirliði argentínska landsliðsins en Heimir stýrði íslenska karlalandsliðinu á HM 2018 í Rússlandi þegar Ísland og Argentína mættust í D-riðli keppninnar í Moskvu hinn 16. júní.

Margir öflugir knattspyrnumenn leika með Jamaíka en þar ber hæst að nefna þá Michail Antonio, Leon Bailey og Bobby Reid sem leika allir í ensku úrvalsdeildinni.

Heimir, sem er 55 ára gamall, hefur verið án starfs síðan hann lét af störfum sem þjálfari Al-Arabi í Katar á síðasta ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert