Mathias Pogba, bróðir franska knattspyrnumannsins Paul Pogba, var handtekinn og færður í gæsluvarðhald í dag af lögreglu í Frakklandi.
Það er Sportsmail sem greinir frá þessu en Mathias er grunaður um að reyna kúga fé út úr bróður sínum Paul Pogba.
Mathias, sem er 32 ára gamall knattspyrnumaður, var handtekinn ásamt þremur öðrum en franskt glæpagengi reyndi að kúga alls 13 milljónir evra út úr Paul Pogba á dögunum.
Mathias hafði áður hótað því að opinbera ýmislegt sem snýr að einkalífi leikmannsins ef hann myndi ekki borga uppsett verð.
Þá hefur hann einnig sakað bróður sinn um að leita til galdralæknis til þess að leggja bölvun á liðsfélaga hans í franska landsliðinu, Kylian Mbappé, en málið hefur verið á borði lögreglu í Frakklandi síðan í ágúst.