Heimir bætir landsliðsfyrirliðanum í hópinn sem mætir Argentínu

Heimir aðstoðaði Hermann Hreiðarsson og ÍBV um tíma í sumar.
Heimir aðstoðaði Hermann Hreiðarsson og ÍBV um tíma í sumar. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Heimir Hallgrímsson, nýráðinn landsliðsþjálfari knattspyrnuliðs Jamaíka, segist vilja að allir byrji með hreint borð og erfiðleikar og ósætti milli manna verði sett til hliðar.

Hann hefur valið landsliðsfyrirliðann, Andre Blake, í hópinn en Blake hafði verið settur út í kuldann eftir að hafa gagnrýnt jamaíska knattspyrnusambandið. „Ég hef rætt við leikmanninn og við höfum útkljáð málið, þetta var í besta falli eilítið vandræðalegt en hann verður í hópnum sem mætir Argentínu og það er mín von að ég sem þjálfari geti hafið samstarf við fyrirliðann og liðið. Ég er vongóður um að samstarfið verði gott“.

Heimir kallaði eftir samstöðu eyjaskeggja og stuðningi almennings, á blaðamannafundi, er hann var kynntur sem nýr landsliðsþjálfari eftir að hafa skrifað undir fjögurra ára samning. Hann mun leiða það verkefni að koma liðinu á HM 2026 sem haldið verður í Bandaríkjunum, Kanada og Mexíkó. „Ég kom ekki hingað fyrir peningana. Mér líst vel á þá möguleika sem liggja í knattspyrnunni hér og ég er ekki síður spenntur að vinna með ykkur þegar kemur að því að marka knattspyrnunni á Jamaíka stefnu. Ég vildi velja næsta verkefni í þjálfun vel og á þessum tímapunkti á mínum ferli hentaði fullkomlega að koma til Jamaíka og reyna að laga það sem þarf að laga hér. Þó ég muni einnig vinna að stefnumörkun fyrir knattspyrnuna í Jamaíka þurfum við að leggja áherslu á velgengni landsliðsins og að vinna knattspyrnuleiki um leið og við byggjum upp samstöðu fyrir HM 2026. Öll vitum við að í hverjum einasta leik er ákveðinn pressa um að ná góðum úrslitum og að vinna og að enginn þjálfari mun lifa í starfi án þess að vinna knattspyrnuleiki“, sagði Heimir.

Michael Ricketts, forseti Knattspyrnusambands Jamaíka og fyrrum leikmaður Bolton Wanderers og Middlesbrough í ensku úrvalsdeildinni, sagðist vera ánægður með ráðningu Heimis því hann veit að Heimir hefur ástríðu fyrir knattspyrnu og verkefninu sem slíku. Ricketts kallaði einnig eftir meiri samstöðu eyjaskeggja og trygglyndi og bjartsýni gagnvart verkefninu. „Knattspyrnusambandið hefur verið að gera mikilvægar innri breytingar sem hafa komið því á þannig stað að við getum staðið þétt við bakið á landsliðsþjálfaraum og verkefninu sem framundan er“, sagði Michael Ricketts við tilefnið.

Heimir sagði að sinn væri heiðurinn að fá að starfa fyrir Knattspyrnusamband Jamaíka og að hann væri bæði þakklátur og spenntur fyrir tækifærinu, „Mín fyrstu kynni af landi og þjóð eru mjög jákvæð. Ég varði fríi hér ásamt eiginkonu minni fyrir líklega áratug og það var mögulega eitt af betri fríum sem ég hef tekið. Ég fékk góðar móttökur bæði þá og nú“.

Heimir bar lítið eitt saman verkefnið nú og verkefnið með íslenska landsliðið á sínum tíma. „Ég sé mikla möguleika og efnivið hér á Jamaíka og ef ég ber það saman við verkefnið með íslenska landsliðið þá eru möguleikarnir talsvert meiri hér en á Íslandi. Næsta ár verður mjög stórt fyrir landsliðið. Fyrst sækjum við Mexíkó heim í Þjóðadeildinni og svo tekur Gullbikarinn við næsta sumar. Það er aðeins ár í það að við hefjum leik í undankeppni HM 2026 svo við þurfum að komast  fljótt af stað og ná fram stöðugleika í liðinu.“

Heimir Hallgrímsson á æfingu íslenska landsliðsins á HM 2018 í …
Heimir Hallgrímsson á æfingu íslenska landsliðsins á HM 2018 í Rússlandi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Heimir segist þurfa að læra inn á menninguna í Jamaíka áður en hann getur farið að leiðbeina, gera breytingar og málamiðlanir. „Ég er nógu reyndur til að vita að ég þarf að læra inn á ykkar aðferðafræði áður en ég fer að skipta mér of mikið af því hvernig þið gerið hlutina. Ég hef að sjálfsögðu mínar hugmyndir um það hvernig við náum alþjóðlegum árangri en ég þarf að aðlagast ykkar menningu.“

Heimir ræddi möguleikana gegn Argentínu sem sitja í 4. sæti heimslista FIFA. „Þetta er ekki auðveldasta verkefnið til að takast á við fyrir nýjan þjálfara. Ég hef trú á því að Argentína geti orðið næsti heimsmeistari. Liðið er frábært og í sínum lokaundirbúningi fyrir HM 2022 og með leikmenn sem munu leggja allt í sölurnar til að sanna sig og reyna að komast í hópinn sem fer á HM í Katar í nóvember. Þetta er að sama skapi tækifæri fyrir mig sem þjálfara því andstæðingurinn mun afhjúpa okkar veikleika, sér í lagi varnarlega, svo að því sögðu er þetta góður fyrsti leikur fyrir mig við stjórn, sagði Heimir Hallgrímsson, nýráðinn landsliðsþjálfari Jamaíka til næstu fjögurra ára“.

Heimir Hallgrímsson stýrði Íslandi í eftirminnilegu jafntefli gegn Argentínu á …
Heimir Hallgrímsson stýrði Íslandi í eftirminnilegu jafntefli gegn Argentínu á HM 2018. Hann mætir liðinu í frumraun sinni sem landsliðsþjálfari Jamaíka. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert