Pogba nýtur lögregluverndar

Paul Pogba hefur ekki átt sjö dagana sæla að undanförnu.
Paul Pogba hefur ekki átt sjö dagana sæla að undanförnu. AFP/Marco Bertorello

Franski knattspyrnumaðurinn Paul Pogba hefur verið mikið á milli tannanna á fólki eftir að fréttir bárust af því að franskt glæpagengi hefði reynt að kúga út úr honum 13 milljónir evra.

Bróðir hans, Mathias, var handtekinn á dögunum í Frakklandi og færður í gæsluvarðhald en hann er sagður hluti af glæpagenginu sem reynt hefur að kúga fé út úr leikmanninum.

The Athletci greinir frá því í dag að Pogba njóti nú lögregluverndar á Ítalíu en hann gekk til liðs við Juventus í sumar eftir sex ár í herbúðum Manchester United.

Meðlimir glæpagengisins sáust fyrir utan æfingasvæði Juventus fyrr í þessum mánuði og því var ákveðið að Pogba fengi lögregluvernd á meðan málið er rannsakað.

Pogba, sem er 29 ára gamall, er að glíma við meiðsli og hefur því ekkert komið við sögu á Juventus á tímabilinu.

Þá er óvíst hvort hann verði tilbúinn í slaginn þegar heimsmeistaramótið í Katar hefst í nóvember en Frakkar eiga titil að verja á mótinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert