Forráðamenn dönsku sjónvarpsstöðvarinnar TV2 hafa ákveðið að slíta samstarfi sínu við fyrrverandi knattspyrnumanninn Brian Laudrup.
Laudrup, sem er 53 ára gamall og lék 82 A-landsleiki fyrir Dani, hefur verið sérfræðingur stöðvarinnar í málefnum danska karlalandsliðsins.
Hann hefur því reglulega mætt í sjónvarpssal þegar Danir spila landsleiki og átti til að mynda að vera sérfræðingur í setti í komandi leikjum danska liðsins í Þjóðadeildinni.
Forráðmenn stöðvarinnar ákváðu hins vegar að reka Laudrup eftir að hann birtist í auglýsingu á heimasíðu vefmiðilsins Visit Dubai.
Auglýsingin var til þess gerð að hvetja áhorfendur og stuðningsmenn til þess að dvelja í Dubai á meðan heimsmeistaramótið í Katar stendur yfir, dagana 20. nóvember til 18. desember.
Danir hafa verið einna háværastir í gagnrýni á mótshaldara í Katar, meðal annars fyrir skelfilegan aðbúnað verkamanna og mannréttindabrot, og því kemur uppsögnin fáum á óvart í Danmörku.
Þá hefur fréttamiðillinn Politiken einnig slitið samstarfi sínu við Laudrup sem var byrjaður að taka upp hlaðvarpsþætti um fótbolta fyrir hönd miðilsins.