Alls hafa sex manns verið ákærðir vegna harmleiksins á Kanjuruhan-leikvanginum í Indónesíu, þar sem að minnsta kosti 131 lét lífið í troðningi. Þar á meðal eru lögregluþjónar og skipuleggjendur leiks Arema og Persebaya Surabaya um síðustu helgi.
Eftir leik erkifjendanna tveggja, sem lauk með 3:2-sigri Persebaya, hófst uppþot þar sem fjöldi fólks hljóp inn á keppnisvöllinn.
Mikill fjöldi reyndi þá að flýja óeirðirnar á meðan lögregla beitti táragasi. Auk þess var stórum hluta útganga vallarins læst, sem gerði illt verra og leiddi til mannskæðs troðnings.
Um einn versta íþróttaharmleik sögunnar er að ræða.
Listyo Sigit Prabowo yfirlögregluþjónn tilkynnti á blaðamannafundi að á meðal þeirra sex grunuðu er yfirmaður indónesísku 1. deildarinnar, sem ber ábyrgð á að sjá til þess að leikvangar séu með tilskilin leyfi til þess að kappleikir geti farið fram á þeim.
Hann bætti því við að Kanjuruhan-leikvangurinn í Malang-borg hafi ekki verið með öll tilskilin leyfi.
Þrír lögregluþjónar eru einnig ákærðir fyrir misbeitingu táragass ásamt formanni skipulagsnefndar indónesísku 1. deildarinnar og yfirmanni öryggismála Arema.
Allir sex eru ákærðir fyrir vítavert gáleysi sem leiddi til dauða, og geta þeir fengið að hámarki fimm ára fangelsisdóm verði þeir fundnir sekir.