Yfirvöld í Indónesíu hafa tilkynnt áform um að rífa Kanjuruhan-leikvanginn í Malang, þar sem að minnsta kosti 131 lét lífið og hundruðir slösuðust í troðningi í upphafi mánaðarins, eftir að lögregla beitti táragasi á stuðningsmenn sem hlaupið höfðu inn á völlinn eftir leik erkifjendanna Arema og Persebaya Surabaya í indónesísku fyrstu deildinni.
Fyrstu fregnir hermdu að 174 hafi látist í það minnsta en síðar hefur verið staðfest að nokkru færri hafi látið lífið.
Alls hafa sex verið ákærðir vegna harmleiksins, þar á meðal lögreglumenn og skipuleggjendur leiksins en harmleikurinn er einn sá versti í íþróttasögunni. Komið hefur fram að Kanjuruhan-leikvangurinn í Malang hafi ekki verið með öll tilskilin leyfi til að kappleikir mættu fara þar fram.
Joko Widodo, forseti Indónesíu, sagði leikvanginn verða endurbyggðan eftir ýtrustu öryggiskröfum Alþjóða knattspyrnusambandsins, FIFA. Forsetinn sagði á fréttamannafundi, eftir að hafa fundað með Gianni Infantino, forseta FIFA, að stjórnvöld þyrftu að sjá til þess að stjórn knattspyrnumála í landinu verði umbylt.
Indónesía verður gestgjafi HM í knattspyrnu landsliða 20 ára og yngri árið 2023. FIFA og stjórnvöld í Indónesíu hafa ákveðið að taka höndum saman í aðdraganda mótsins. Infantino sagði meðal annars eftir fundinn með Widodo, að tryggja þurfi öryggi þeirra sem sækja mótið.
„Indónesía er knattspyrnuþjóð, þar sem knattspyrna er ástríða yfir 100 milljón manna. Fólkið á inni hjá okkur að við sjáum til þess að það sé öruggt þegar það sækir leiki,“ sagði Gianni Infantino, forseti FIFA, Alþjóða knattspyrnusambandsins.
24 þjóðir munu eigast við á HM U20 næsta sumar á leikvöngum í sex borgum í Indónesíu. Kanjuruhan-leikvangurinn var ekki einn af þeim völlum sem hýsa átti leik í keppninni.