Skagamaðurinn sá rautt fyrir leikaraskap

Hákon Arnar Haraldsson fékk sitt annað gula spjald fyrir leikaraskap.
Hákon Arnar Haraldsson fékk sitt annað gula spjald fyrir leikaraskap. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hákon Arnar Haraldsson, Skagamaðurinn ungi hjá FC Kaupmannahöfn í Danmörku, átti erfiðan dag er FCK komst áfram í dönsku bikarkeppninni í fótbolta í gærkvöldi eftir nauman sigur á Hobro, en Hobro leikur í næstefstu deild.

Kaupmannahafnarliðið var langt frá sínu besta, en fór að lokum áfram eftir sigur í vítakeppni. Staðan eftir venjulegan leiktíma og framlengingu var 1:1.

Hákon fékk sitt annað gula spjald og þar með rautt spjald á 81. mínútu fyrir leikaraskap. Jacop Neestrup, þjálfari FCK, var ekki sáttur við dóminn.

„Þetta er einvígi og hann getur ekki bara staðið þarna. Ég veit ekki hvort þetta var aukaspyrna en það var harður dómur að gefa honum spjald. Fyrir mér var þetta ekki leikaraskapur,“ sagði Neestrup við Bold eftir leik.

Hákon var sjálfur mjög óánægður með dóminn og sparkaði flösku í áttina að stuðningsmönnum Hobro. „Hann sparkaði í flösku og hún fór óvart upp í stúku. Það dó enginn og þetta gerist stundum,“ sagði Neestrup.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert