Mike Maignan, markvörður Ítalíumeistara AC Milan og franska landsliðsins í knattspyrnu karla, er meiddur á kálfa og missir því af heimsmeistaramótinu sem hefst í Katar eftir rétt tæplega mánuð.
Þetta staðfesti Stefano Pioli, knattspyrnustjóri AC Milan, á blaðamannafundi í dag.
Þar sagði hann kálfameiðslin vera það alvarleg að Maignan muni ekki snúa aftur til æfinga og keppni fyrr en á næsta ári.
Maignan var valinn besti markvörður ítölsku A-deildarinnar á síðasta tímabili þegar AC Milan vann deildina.
Á þessu ári hafði hann spilað fjóra af fimm A-landsleikjum sínum fyrir Frakkland og átti sæti í franska landsliðshópnum víst fyrir HM 2022.