Knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, hefur tilkynnt að nýrri keppni í kvennaflokki, Þjóðadeild, verði komið á fót strax á næsta ári.
Í tilkynningu frá UEFA segir að hugsunin á bak við Þjóðadeildina sé sú að fjölga keppnisleikjum sem skipti máli á kostnað vináttulandsleikja.
Þjóðadeild UEFA í kvennaflokki hefst haustið 2023 og verður beintengd EM 2025 og HM 2027. Leikið verður í þremur deildum; A, B og C þar sem lið geta unnið sig upp um deildir og fallið.
Ísland verður ein af þeim sextán þjóðum sem verða í fyrstu A-deildinni.
Þrjú til fjögur lið verða í hverjum riðli og í umspili hverrar deildar gefst tækifæri til þess að tryggja sér sæti á EM, og seinna meir á HM 2027.
Undankeppni EM 2025 og síðan HM 2027 verða með sama fyrirkomulagi og lið færast á milli deilda þannig að árangur í Þjóðadeildinni 2023-24 raðar liðunum niður í deildir fyrir undankeppni EM 2025.
„Ég sagði það í sumar að við myndum halda áfram að fjárfesta í kvennafótbolta og það erum við að gera. Í kjölfar sögulegs Evrópumóts er tímabært að þróa landsliðsfótbolta enn frekar.
Við höfum komið á laggirnar opnu, samkeppnishæfu og samfelldu kerfi þar sem hver og einn einasti leikur mun skipta máli, sem endurspeglar evrópska íþróttamódelið.
Ég er þess sannfærður að þetta fyrirkomulag muni hjálpa öllum evrópskum knattspyrnusamböndum að halda draumi sínum um að tryggja sér sæti á stórmóti lifandi,“ sagði Aleksander Ceferin, forseti UEFA.