Hlín komin í Íslendingaliðið

Hlín Eiríksdóttir í leik með íslenska landsliðinu.
Hlín Eiríksdóttir í leik með íslenska landsliðinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hlín Eiríksdóttir, landsliðskona í knattspyrnu, er gengin til liðs við eitt besta lið Svíþjóðar, Kristianstad, og leikur þar undir stjórn Elísabetar Gunnarsdóttur á næsta tímabili.

Hún samdi í dag við félagið til tveggja ára en Hlín hefur leikið tvö síðustu tímabil með Piteå í sænsku úrvalsdeildinni. Hún var markahæsti leikmaður liðsins og sjötta markahæst í deildinni í heild með tíu mörk á nýliðnu keppnistímabili.

Kristianstad endaði í fjórða sæti deildarinnar í ár en Elísabet lauk þar sínu fjórtánda tímabili sem þjálfari liðsins. Landsliðskonan unga Amanda Andradóttir leikur með Kristianstad, sem og hin 16 ára gamla Emelía Óskarsdóttir sem spilaði nær helming leikja liðsins í deildinni í ár.

Hlín er 22 ára gömul og lék með meistaraflokki Vals í sex ár áður en hún gekk til liðs við Piteå fyrir tímabilið 2021.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert