Íslendingaliðin Wolfsburg og París SG tryggðu sér í kvöld sæti í átta liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í fótbolta.
Sveindís Jane Jónsdóttir var í byrjunarliði Wolfsburg og lék fyrstu 75 mínúturnar er liðið gerði jafntefli við Slavia Prag á heimavelli, 0:0.
Þrátt fyrir jafntefli gegn botnliði riðilsins á heimavelli, er Wolfsburg komið áfram í átta liða úrslit, þegar ein umferð er eftir af riðlakeppninni.
París SG vann 2:1-sigur á Real Madrid á heimavelli. Berglind Björg Þorvalsdóttir var ekki í leikmannahópi Parísarliðsins, en hún hefur lítið fengið að spreyta sig hjá liðinu, eftir að hún kom til þess frá Brann.