Pogba laus úr varðhaldi

Bræðurnir Florentin, Paul og Mathias Pogba á góðri stundu.
Bræðurnir Florentin, Paul og Mathias Pogba á góðri stundu. AFP/Daniel Leal

Mathias Pogba, bróðir frönsku knattspyrnustjörnunnar Paul Pogba, hefur verið leystur úr varðhaldi, en hann var handtekinn í september fyrir tilraun til að kúga fé úr bróður sínum. Var Mathias Pogba einn fjögurra grunuðu í málinu.

Paul Pogba hafði samband við lögreglu og greindi frá að glæpagengi hafi reynt að kúga hann um 12,5 milljónir evra. Í kjölfarið voru fjórir handteknir, þar á meðal Mathias Pogba.

Mathias Pogba hótaði að leka ýmsum upplýsingum um bróður sinn í fjölmiðla, ef Paul myndi ekki greiða honum upphæðina. Hann hefur ávallt haldið fram sakleysi sínu, en var þrátt fyrir það hnepptur í varðhald, sem hann er nú laus úr.

Mathias Pogba má hvorki hafa samband við Paul, né móður þeirra. Þá má hann ekki yfirgefa Frakkland, né nota samfélagsmiðla.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert