Svava Rós Guðmundsdóttir, landsliðskona í fótbolta, er á förum frá Noregsmeisturum Brann. Hún kvaddi félagið í færslu á Instagram í gærkvöldi.
Svava varð norskur meistari með Brann á síðustu leiktíð, en hún kom til félagsins í byrjun síðasta árs. Átti hún gott tímabil og sinn þátt í að Brann varð meistari.
Sóknarmaðurinn lék með Val og Breiðabliki hér á landi, en hefur leikið erlendis frá árinu 2018. Fyrst með Røa í Noregi og síðan Kristianstad í Svíþjóð, Bordeaux í Frakklandi og loks Brann.
Svava hefur m.a. verið orðuð við West Ham, þar sem Dagný Brynjarsdóttir er fyrirliði.