Napólí vann sannfærandi 3:0-útisigur á Spezia er liðin mættust í ítölsku A-deildinni í fótbolta í dag.
Eftir markalausan fyrri hálfleik kom Khvicha Kvaratskhelia Napólí yfir með marki úr víti og Victor Osimhen tryggði liðinu þriggja marka sigur með mörkum á 68. og 73. mínútu.
Með sigrinum fór Napólí upp í 56 stig og er liðið með 16 stiga forskot á Inter Mílanó og Roma, en fyrrnefnda liðið á leik til góða.
Napólí hefur ekki orðið meistari frá árinu 1990 og í raun aðeins tvívegis orðið meistari, það er árin 1987 og 1990. Diego Maradona var í aðalhlutverki hjá liðinu bæði tímabilin.