Real Madrid tapaði óvænt fyrir Mallorca, 0:1, á útivelli er liðin mættust í spænsku 1. deildinni í fótbolta í dag.
Sigurmarkið kom á 13. mínútu þegar Nacho Fernández skoraði sjálfsmark. Þrátt fyrir nánast stanslausa sókn Real eftir markið, tókst meisturunum ekki að jafna.
Marco Asensio fékk besta færið á 60. mínútu en Pedrag Rajkovic varði frá honum víti og því fór sem fór.
Real er í öðru sæti deildarinnar með 45 stig, fimm stigum á eftir Barcelona og á Barcelona auk þess leik til góða. Mallorca er í tíunda sæti með 28 stig.