Birkir Bjarnason, landsliðsmaður í knattspyrnu og leikmaður Adana Demirspor í Tyrklandi, hefur tilkynnt að hann sé óhultur eftir að stærðarinnar jarðskjálfti reið yfir suðausturhluta Tyrklands, þar sem Birkir er búsettur.
Á sjötta hundrað manns eru látnir, þar af að minnsta kosti 245 í Sýrlandi og að minnsta kosti 284 í Tyrklandi.
Upptök jarðskjálftans voru við landamæri landanna tveggja, skammt frá borginni Gaziantep í Tyrklandi, og náði jarðskjálftinn meðal annars til Adana, borgarinnar þar sem íþróttafélagið Adana Demirspor er staðsett og Birkir býr.
Á Facebook-síðu sinni tilkynnti Birkir, sem er leikjahæsti landsliðsmaður karla í knattspyrnu í sögunni, að hann væri óhultur. Hann var ekki heima hjá sér í Adana þar sem lið hans átti að spila á útivelli í dag gegn Ümraniyespor í Istanbúl.
Öllum íþróttaviðburðum í Tyrklandi hefur verið frestað um óákveðinn tíma vegna jarðskjálftans.