Skoraði sigurmark í gær - týndur í dag

Christian Atsu.
Christian Atsu.

Christian Atsu, knattspyrnumaður frá Gana sem áður lék með Newcastle og  fleiri enskum liðum, er meðal þeirra sem saknað er eftir jarðskjálftann stóra í suðausturhluta Tyrklands í nótt.

Atsu er leikmaður Hatayspor í  Tyrklandi og í gær skoraði hann sitt fyrsta mark fyrir félagið, sigurmark gegn Kasimpasa, 1:0, í tyrknesku úrvalsdeildinni.

Tyrkneskir fjölmiðlar segja að Atsu sé í hópi þeirra fjölmörgu sem grafnir séu í rústum húsa eftir skjálftann.

Atsu er 31 árs gamall og lék með Chelsea, Everton og Newcastle á árunum 2013 til 2021 og á 112 leiki að baki í ensku úrvalsdeildinni. Hann kom til Hatayspor frá Al-Raed í Sádi-Arabíu fyrir þetta tímabil.

Cemal Kutahya, landsliðsmaður Tyrklands í handknattleik og leikmaður Hatayspor, er líka í hópi þeirra sem eru sagðir týndir eftir skjálftann.

Fleiri knattspyrnumanna er saknað því B-deildarfélagið Yeni Malatyaspor hefur staðfest að markvörðurinn Eyup Turkaslan sé týndur eftir skjálftann.

Fjölmiðillinn Haber Global segir að leikmenn úr knattspyrnuliði Marasspor hafi verið á hóteli sem eyðilagðist í skjálftanum. Í það minnsta tvö blaklið, annað skipað stúlkum 14 ára og yngri, hafi lent í vandræðum og fjölmiðillinn Birgun segir að hópur glímumanna sé fastur í húsarústum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert