Vill alls ekki missa Arnór

Arnór Sigurðsson er í láni hjá Norrköping.
Arnór Sigurðsson er í láni hjá Norrköping. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Glen Riddersholm, danskur þjálfari sænska knattspyrnuliðsins Norrköping, leggur gríðarlega mikið upp úr því að halda Skagamanninum Arnóri Sigurðssyni í röðum félagsins.

Arnór sneri aftur til Norrköping síðasta sumar, í láni frá CSKA Moskva, en Norrköping seldi hann þangað fyrir fjórum árum. Hann er í láni hjá sænska félaginu þar til í sumar en Riddersholm segist alls ekki vilja missa hann aftur til Rússlands eða til annars félags.

„Ég vonast eftir að allir í kringum félagið, styrktaraðilar og stjórnarmenn, lýsi því yfir, helst í dag frekar en á morgun, að þeir muni gera allt til að tryggja að Arnór Sigurðsson verði áfram leikmaður Norrköping. Kannski bara eitt tímabil enn, og svo getur hann farið í stærra félag," sagði Riddersholm við sænska netmiðilinn Fotbollskanalen.

„Ég vonast til að geta unnið lengi með honum lengi en ef það gengur ekki eftir mun ég njóta þess á meðan það er og vonast til að við finnum leiðir til að fjármagna dvöl hans hjá okkur. Hann er leikmaður í fremstu röð og verður því aðeins áfram hérna ef við sýnum að við höfum metnað og kraft. Sem félag verðum við að sýna að við viljum vera í fremstu röð, líka eftir tvö til þrjú ár. Það er hans metnaður," sagði Glen Riddersholm en Arnór skoraði sex mörk og átti fjórar stoðsendingar í ellefu leikjum eftir að hann sneri aftur til félagsins í fyrra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert