Forráðamenn sænska knattspyrnufélagsins Hammarby hafa mikinn áhuga á íslenska framherjanum Hólmberti Aroni Friðjónssyni.
Þetta herma heimildir mbl.is og þá hefur sænski miðillinn Sportbladet einnig fjallað um málið.
Hólmbert, sem er 29 ára gamall, er samningsbundinn Holstein Kiel í þýsku B-deildinni en hann lék með Lilleström í Noregi á láni á síðustu leiktíð þar sem hann skoraði 13 mörk í 36 leikjum.
Hólmbert hefur einnig leikið með Bröndby, Aalesund og Brescia á atvinnumannaferli sínum en hann eru uppalinn hjá HK í Kópavogi.
Samkvæmt heimildum mbl.is hefur Hammarby lagt fram tvö tilboð í framherjann, sem báðum hefur verið hafnað, en alls á hann að baki sex A-landsleiki þar sem hann hefur skorað tvö mörk.
Hammarby hafnaði í þriðja sæti sænsku úrvalsdeildarinnar á síðustu leiktíð með 56 stig, átta stigum minna en meistaralið Häcken.