Kristian skoraði í tapi

Kristian Nökkvi Hlynsson í leik með U21-árs landsliði Íslands síðastliðið …
Kristian Nökkvi Hlynsson í leik með U21-árs landsliði Íslands síðastliðið haust. Ljósmynd/KSÍ

Kristian Nökkvi Hlynsson var á skotskónum fyrir Jong Ajax þegar liðið tapaði fyrir Den Bosch, 2:4, í hollensku B-deildinni í knattspyrnu í kvöld.

Den Bosch náði forystunni eftir rúmlega stundarfjórðungs leik en eftir rúmlega hálftíma leik jafnaði Jorrel Hato metin fyrir Jong Ajax.

Kristian Nökkvi kom gestunum svo yfir fimm mínútum síðar, á 38. mínútu. Þetta var hans fjórða mark í deildinni fyrir liðið á tímabilinu.

Jong Ajax leiddi því með einu marki í leikhléi en strax í upphafi síðari hálfleik jafnaði Den Bosch metin.

Heimamenn skoruðu svo tvö mörk til viðbótar og tryggðu sér góðan endurkomusigur.

Den Bosch er í 16. sæti með 26 stig og Jong Ajax sæti neðar með 25 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert